Arsenal menn kláruðu sitt og nú er pressan á Man. City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leandro Trossard og Declan Rice fagnar marki þess fyrrnefnda sem Rice lagði upp.
Leandro Trossard og Declan Rice fagnar marki þess fyrrnefnda sem Rice lagði upp. Getty/Ryan Pierse

Arsenal er komið með fjögurra stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir 3-0 sigur á Bournemouth í hádegisleik ensku úrvalsdeildarinnar.

Arsenal byrjaði helgina einu stigi á undan Manchester City en Englandsmeistararnir spila seinna í dag.

Með því að klára sinn leik þá er mun meiri pressa á City mönnum í leik þeirra á móti Úlfunum í kvöld.

Bukayo Saka, Leandro Trossard og Declan Rice skoruðu mörk Arsenal í leiknum.

Arsenal var með mikla yfirburði í fyrri hálfleik en fyrsta markið kom ekki fyrr en úr vítaspyrnu á lokamínútu fyrri hálfleiksins.

Kai Havertz fiskaði vítið og Bukayo Saka skoraði úr því af öryggi.

Bournemouth stóð sig betur í seinni hálfleiknum og það var því enn mikil spenna í leiknum.

Stuðningsmönnum Arsenal létti þó á 70. mínútu þegar Leandro Trossard kom liðinu í 2-0. Hann fékk þá boltann frá Declan Rice og skoraði laglega.

Mark var dæmt af Bournemouth skömmu síðar. Myndbandsdómarar staðfestu dóm David Coote en þetta var mjög harður dómur.

Gabriel skoraði glæsilegt mark fyrir Arsenal undir lokin en markið var dæmt af vegna rangstöðu.

Declan Rice kórónaði frábæran leik sinn með því að skora þriðja markið í uppbótatíma og bætti þar með enn við frábæra markatölu liðsins.

Rice er þar með kominn með sjö mörk og átta stoðsendingar í deildinni á sínu fyrsta tímabili með Arsenal.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira